Jón Þór tekur við Skagamönnum

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu en Vestramenn skýrðu frá því fyrir stundu að hann væri hættur hjá þeim til að taka við Skagamönnum.

„Jón Þór Hauksson hefur samið við ÍA um að taka við þjálfun liðsins. Jón Þór óskaði sjálfur eftir því að fá að losna undan samningi. Vestri og ÍA náðu samkomulagi sín á milli og mun Jón Þór því láta strax af störfum," segir á heimasíðu Vestra.

Jón Þór þarf ekki að fara langt því hann er Skagamaður og búsettur á Akranesi en hann lék með ÍA sjálfur á sínum tíma. Þá var hann aðstoðarþjálfari liðsins og stýrði því sem aðalþjálfari á lokaspretti tímabilsins 2017.

Hann var síðan aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni og tók svo við kvennalandsliði Íslands en hætti störfum þar í desember 2020 eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins.

Jón kom til liðs við Vestramenn á miðju síðasta tímabili. Liðið endaði í fimmta sæti 1. deildar og komst í undanúrslit bikarkeppninnar eftir að hafa m.a. slegið út Valsmenn.

Jóhannes Karl Guðjónsson hætti störfum sem þjálfari ÍA á dögunum eftir að hafa stýrt liðinu frá 2018, til þess að taka við starfi aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins.

Uppfært:
ÍA hefur nú formlega tilkynnt að Jón Þór Hauksson hafi verið ráðinn þjálfari Skagamanna til næstu þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert