Svava Rós Guðmundsdóttir landsliðskona í knattspyrnu samdi í dag við norsku meistarna Brann en hún kemur til þeirra frá Bordeaux í Frakklandi.
Svava, sem er 26 ára gömul og á 30 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd, samdi við félagið út þetta keppnistímabil með möguleika á framlengingu um eitt ár til viðbótar.
Svava fékk sig lausa undan samningi við Bordeaux í desember en hún fékk nær engin tækifæri þar á tímabilinu og spilaði frá byrjun tímabils til áramóta einn deildarleik og þrjá Evrópuleiki með franska liðinu.
Áður lék hún í tvö ár með Kristianstad í Svíþjóð og þar á undan eitt tímabil með Röa í Noregi en Svava lék áður með Breiðabliki og Val. Hún átti sérstaklega gott tímabil með Röa og skoraði 18 mörk fyrir félagið árið 2018, þar af 14 mörk í 21 leik í norsku úrvalsdeildinni.
Svava getur einmitt byrjað tímabilið á sínum gamla heimavelli en Brann heimsækir Röa í fyrstu umferð deildarinnar 20. mars.
Hjá Brann hittir hún fyrir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem kom til norska liðsins frá Hammarby í vetur.
Brann er í raun nýtt félag í norska kvennafótboltanum en í vetur tók það við keppnisleyfi norsku meistaranna Sandviken og verður því annar fulltrúa Noregs í Meistaradeild Evrópu í haust.