Hef engar áhyggjur af Söru Björk

Sara Björk Gunnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember á …
Sara Björk Gunnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, snéri aftur til Frakklands í síðasta mánuði eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn í nóvember á síðsta ári.

Sara Björk, sem er 31 árs gömul, mætti aftur á æfingasvæði Lyon á dögunum þar sem hún er samningsbundin en hún hefur sjálf gefið það út að hún stefni á að vera klár í slaginn þar lokakeppni Evrópumótsins hefst á Englandi í sumar.

„Sara Björk er bara á þeim stað núna að hún er að koma sér aftur af stað eftir barnsburð,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

„Hún er byrjuð að æfa aftur en ég held að hún sé ekki byrjuð aftur í fótbolta. Ég hef ekkert rætt við hana en ég mun gera það á næstunni. Ég held að hún setji alveg nægilega mikla pressu á sig sjálf að koma sér í gang og af stað án þess að ég sé að ýta eitthvað við henni líka.

Ég hef engar áhyggjur af henni og auðvitað vonast ég til þess að hún nái að koma sér sem fyrst út á völl aftur enda snýst þetta fyrst og fremst um það að hún byrji að spila fótbolta aftur,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert