Eitt af helstu stefnumálum Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanns KSÍ, er að vinna gegn öllu ofbeldi innan Knattspyrnuhreyfingarinnar. Þetta kom fram í stefnuyfirlýsingu hennar sem hún sendi fjölmiðlum í dag.
Vanda, sem er 56 ára gömul, gefur kost á sér til endurkjörs á ársþingi KSÍ sem fram fer á Ásvöllum í Hafnarfirði hinn 27. febrúar.
Hún tók við formannsembættinu á aukaþingi sambandsins í október á síðasta ári eftir að Guðni Bergsson lét af störfum og sækist nú eftir kjöri til næstu tveggja ára sem formaður sambandsins.
„Nauðsynlegt er að stefna og hlutverk KSÍ sé á hreinu og stefnuáherslur í lykilviðfangsefnum sambandsins séu öllum ljósar,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.
„Í þessari vinnu þarf að hugsa til framtíðar, með framsækni, metnað og fagmennsku að leiðarljósi,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Vanda nefnir sérstaklega samstarf við félögin í landinu, Stefnumótun og rekstur, uppeldis- og grasrótarstarf, fræðslu og farvarnir gegn ofbeldi af öllu tagi, mannvirkjamál, jafnréttismál og nýjan þjóðarleikvang í stefnuyfirlýsingunni.
Hún telur mikilvægt að styðja vel við félögin í landinu og hefur heitið því að hlusta og taka vel í allar óskir og fyrirspurnir.
Þá er eitt af áhersluatriðum Vöndu að halda áfram að bæta rekstur sambandsins og gera hann eins skilvarkan og hagkvæman og kostur er.
Hún vill fjölga iðkendum, vinna gegn brottfalli og að knattspyrnuhreyfingin verði samtaka í því að axla þá samfélagslegu ábyrgð að vinna gegn öllu ofbeldi.
Þá vonast hún til þess að niðurstaða um framkvæmd nýs þjóðarleikvangs verði tekin á þessu ári.