Kominn tími á skóflustungu

Vanda Sigurgeirsdóttir sækist eftir kjöri sem formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir sækist eftir kjöri sem formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef alltaf svarað því játandi í viðtölum að ég hygðist gefa kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ og nú er þetta orðið formlegt sem er bara jákvætt,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum sambandsins í Laugardal í dag.

Vanda tilkynnti í dag að hún gæfi áfram kost á sér sem formaður Knattspyrnusambandsins til næstu tveggja ára en kosið verður á ársþingi sambandsins sem fram fer að Ásvöllum í Hafnarfirði hinn 26. febrúar.

Í stefnuyfirlýsingu sinni sem hún sendi fjölmiðlum í dag lagði hún áherslu á mikilvægi nýs þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnulandsliðin og vonaðist hún til þess að framkvæmdaáætlun fyrir nýjan leikvang lægi fyrir á þessu ári.

„Þegar ég kem inn í þetta í október þá er búið að vinna mikið og gott starf í kringum nýjan þjóðarleikvang en það hefur hins vegar lítið mjakast áfram í kerfinu. Aðstaðan hérna á Laugardalsvelli er ekki boðleg fyrir hvorki áhorfendur, fólk með fötlun, blaðamenn og auðvitað okkar eigin leikmenn.

Það er líka mjög vont fyrir okkur að geta ekki spilað okkar heimaleiki á vellinum bæði í mars og nóvember vegna veðurfarsins. Völlurinn er auðvitað á undanþágu hjá FIFA og UEFA og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að koma þessu í lag. Það er kominn tími á skóflustungu að nýjum velli og það þarf að taka einhverja ákvörðun í þessum efnum,“ sagði Vanda.

Laugardalsvöllur er á undanþágu hjá bæði FIFA og UEFA.
Laugardalsvöllur er á undanþágu hjá bæði FIFA og UEFA. mbl.is/Árni Sæberg

Tilbúin að skoða aðra möguleika

Vanda er tilbúin að skoða aðra möguleika utan Reykjavíkur ef ekki næst sátt á milli ríkis og borgar um nýjan leikvang.

„Forráðamenn KSÍ, HSÍ og KKÍ funduðu fyrir áramót með Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra íþróttamála, þar sem við ræddum meðal annars nýja þjóðarleikvanga, sem og fjárframlög til íþróttafélaganna vegna tekjutaps í kringum kórónuveirufaraldurinn. Hann tók okkur og okkar hugmyndum mjög vel og við fundum það á ráðherranum að hann hefur mikinn metnað fyrir íþróttum. Við fylltumst öll bjartsýni eftir þennan fund og núna fer vonandi eitthvað að gerast.

Þolinmæði okkar er ekki endalaus og ég sé ekkert að því að skoða aðra möguleika í þessum efnum þó íþróttahreyfingin eigi sér auðvitað sögu í Laugardalnum. Ég hef þegar fundað með öðrum bæjarfélögum, án þess þó að ég vilji segja eitthvað meira um það sérstaklega. Frá mínum bæjardyrum séð þá vil ég auðvitað að samtalið milli ríki og borgar fari í réttan farveg en ef ekki þá finnst mér allt í lagi að skoða aðra möguleika líka eins og ég sagði áðan.“

Aðstaðan á Laugardalsvelli er ekki boðleg að sögn Vöndu.
Aðstaðan á Laugardalsvelli er ekki boðleg að sögn Vöndu. mbl.is/Unnur Karen

Mikilvægt að styðja við landsbyggðina

Enn sem komið hefur hefur enginn boðið sig fram á móti Vöndu en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, og Páll Magnússon, fyrrverandi alþingismaður, hafa báðir verið orðaðir við framboð til formanns.

„Ég hef fundið fyrir góðum straumum innan hreyfingarinnar en þetta er líka stór hreyfing og ég á eftir að heyra í mjög mörgum sem ég ætla mér að heyra í á næstu dögum og vikum. Ég hef hins vegar bara fengið góð og jákvæð viðbrögð frá þeim sem ég hef rætt við sem er auðvitað frábært. Mér finnst mjög mikilvægt að aðstaðan fyrir fólk á landsbyggðinni sé góð, og auðvitað á höfuðborgarsvæðinu líka. Það er bara þannig á landsbyggðinni að félögin þurfa oft á tíðum að keyra langar vegalengdir til þess að spila heimaleiki sína og það er ekki boðlegt.

Ég og KSÍ viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja við þessa uppbyggingu á landsbyggðinni og ég hitti til að mynda bæjarstjórnina í Suðurnesjabæ í vikunni þar sem var tekið mjög vel á móti mér. Þar stendur til að setja upp gervigrasvöll og ég vildi leggja mitt af mörkum til að hvetja þau til dáða í þeim efnum.  Ég vil gera allt til þess að hjálpa félögunum í landinu og ég set það ekki fyrir mig að keyra á Ísafjörð eða Hornafjörð til þess að koma boltanum af stað,“ sagði Vanda í samtali við Morgunblaðið.

Laugardalsvöllur er svo gott sem ónothæfur í mars- og nóvembermánuði …
Laugardalsvöllur er svo gott sem ónothæfur í mars- og nóvembermánuði vegna veðurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert