Mikill hausverkur

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við lögðum ákveðna áherslu á það að komast á þetta mót,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Íslenska liðið er á leið á She Believes Cup, alþjóðlegt mót, sem fram fer í Bandaríkjunum dagana 17. – 23. febrúar.

Ísland mætir Nýja-Sjálandi, Tékklandi og Bandaríkjunum á mótinu sem er hluti af undirbúningi liðsins fyrir næstu landsliðverkefni í apríl og svo lokakeppni EM 2022 sem fram fer á Englandi í sumar.

„Þetta er góður tímapunktur og þetta er verkefni sem ég tel að muni hjálpa okkur í öllum okkar undirbúningi fyrir Evrópumótið næsta sumar. Þetta er stórt mót á stórum leikvöngum og ég á von á mikið af áhorfendum á þessum leikjum.

Umgjörðin er mikil í kringum þessa leiki og það er ekki þessi týpíski vináttulandsleikja-fílingur í kringum þetta. Ég vonast til þess að þetta mót muni skila sér til leikmannanna þegar á hólminn er komið á Englandi,“ sagði Þorsteinn.

Natasha Anasi er í hópnum en Elín Metta Jensen er …
Natasha Anasi er í hópnum en Elín Metta Jensen er að snúa tilbaka eftir meiðsli og var ekki valin að þessu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fá allir tækifæri

Ísland mætir Nýja Sjálandi 17. febrúar í Carson í Kaliforníu, Tékklandi 20. febrúar, einnig í Carson, og loks Bandaríkjunum 23. febrúar í Frisco í Texas.

„Þetta verður ágætis álag á leikmennina, þrír leikir á sjö dögum, og hvíldin verður því ekki mikil. Við þurfum að ferðast frá Los Angeles til Dallas þannig að það kemur einn ferðadagur inn í þetta líka. Þetta verður svipað og á EM, þar sem við munum þurfa að skipta um hótel, þannig að þetta er líka góður undirbúningur fyrir starfsliðið í kringum liðið enda mikið af hlutum sem þurfa að gerast á skömmum tíma.

Hvað mótið sjálft varðar þá eru þetta hörkulið sem við erum að fara mæta og Bandaríkin eru náttúrulega besta landslið heims. Nýja-Sjáland er á svipuðum stað og við á heimslistanum og við þekkjum Tékkana ágætlega og vitum hvað þær geta. Ég á von á því að allir leikmenn í hópnum muni fá tækifæri og mínútur á þessu móti enda leikið þétt og álagið verður ansi mikið eins og ég kom inn á áðan.“

Berglind Rós Ágústsdóttir er einn þeirra leikmanna sem er að …
Berglind Rós Ágústsdóttir er einn þeirra leikmanna sem er að jafna sig eftir meiðsli. mbl.is/Unnur Karen

Erfiðara en áður

Nokkrir leikmenn eru að glíma við meiðsli og eru því ekki í hópnum að þessu sinni.

„Eins og staðan er í dag þá hefur hópurinn hjá mér frekar stækkað ef eitthvað er. Það er orðið erfiðara að velja hann núna en áður að mínu mati. Það eru fleiri leikmenn sem gera tilkall til þess að vera hérna en mér fannst fyrst þegar ég tók við liðinu. Það eru margir leikmenn á mjög góðum stað á sínum ferli og mengið sem ég hef úr að velja af leikmönnum er bæði jafnt og sterkt.

Það var því erfitt að velja þennan hóp en að sama skapi er þetta spurning um einn til tvo leikmenn þegar það eru aðrir frá vegna meiðsla eins og í þessu tilfelli núna. Áslaug Munda, Guðný Árna, Sara Björk, Hlín Eiríks, Berglind Rós og Elín Metta eru ekki í hópnum vegna meiðsla og ef og þegar þær verða allar heilar líka þá verður þetta mikill hausverkur,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Sveindís Jane Jónsdóttir er í íslenska hópnum.
Sveindís Jane Jónsdóttir er í íslenska hópnum. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert