Þarf að efla orðspor KSÍ

Vanda Sigurgeirsdóttir gefur kost á sér til áframhaldandi setu.
Vanda Sigurgeirsdóttir gefur kost á sér til áframhaldandi setu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, gefur kost á sér til endurkjörs á ársþingi KSÍ sem fram fer í þessum mánuði að Ásvöllum í Hafnarfirði. Þetta kom fram í tilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum í dag.

Vanda, sem er 56 ára gömul, tók við formennsku hjá sambandinu í október á síðasta ári á aukaþingi sambandsins eftir að Guðni Bergsson sagði af sér embætti.

Hún sækist nú eftir kjöri til næstu tveggja ára en ársþingið fer fram sunnudaginn 27. febrúar. Ekkert mótframboð hefur borist sambandinu enn sem komið er en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, og Páll Magnússon, fyrrverandi alþingismaður, eru báðir sagðir íhuga framboð til formanns. 

Yfirlýsing Vöndu:

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ. Ég er mjög stolt af þeirri vinnu sem hefur átt sér stað innan KSÍ síðustu mánuði, verkefnin hafa verið mörg og krefjandi og samtöl og samvinna skilað okkur aftur á réttan kjöl. Þá vinnu vil ég halda áfram að leiða.

Verkefnin framundan eru mörg og spennandi, að efla knattspyrnufélögin í landinu og styrkja barna og unglingastarfið. Við þurfum að setja kraft í að bæta aðstöðuna um land allt, koma þjóðarleikvangsmálum á stað, styrkja landsliðin og efla orðspor KSÍ. Ég er ákaflega stolt af þeim grunni sem við í stjórn KSÍ og starfsfólk höfum lagt á undanförnum mánuðum til áframhaldandi uppbyggingar.

Til þess að ná þessum markmiðum  hef ég ákveðið að deila með hreyfingunni þeim aðgerðarlista sem ég tel mikilvægt að vinna eftir. Með þessu gefst tækifæri á til að koma með tillögur, ábendingar, athugasemdir og spurningar um verkefnin framundan því samvinna okkar er lykillinn að árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert