Næstsíðasta verkefni kvennalandsliðsins í fótbolta fyrir Evrópumótið á Englandi í sumar er framundan. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnti í gær 23 manna hóp sem tekur þátt í alþjóðlegu móti í Kaliforníu og Texas dagana 17. til 23. febrúar.
SheBelieves Cup er boðsmót bandaríska knattspyrnusambandsins sem haldið er sjöunda árið í röð en þar hafa Bandaríkin jafnan fengið til sín þrjú af sterkustu landsliðum heims og leiknar eru þrjár umferðir á átta dögum.
Fyrstu árin voru það Frakkar, Englendingar og Þjóðverjar sem mættu til leiks í Bandaríkjunum en síðan hafa boðsgestirnir verið mismunandi á milli ára. Í fyrra voru það Brasilía, Argentína og Kanada sem tóku þátt ásamt gestgjöfunum og árið 2020 voru það Spánn, England og Japan.
Að þessu sinni eru Ísland, Nýja-Sjáland og Tékkland mótherjar Bandaríkjanna á mótinu. Ísland mætir sem næststerkasta liðið, miðað við heimslistann. Bandaríkin eru efst á honum, Ísland í 15. sæti, Nýja-Sjáland í 22. sæti og Tékkland í 24. sæti. Leikið verður við Nýja-Sjáland og Tékkland í Carson í Kaliforníu 17. og 20. febrúar og við Bandaríkin í Frisco í Texas 23. febrúar.
Þorsteinn fer með nánast sama hóp til Bandaríkjanna og fór í leikina gegn Japan og Kýpur í lok nóvember. Aðeins vantar Guðnýju Árnadóttur sem er meidd og í hennar stað kemur Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks.
En hversu nálægt er Þorsteinn því að móta endanlegan hóp fyrir Evrópukeppnina? Fljótt á litið eru tólf leikmenn sem hafa verið í landsliðshópnum utan við þennan 23 manna hóp og munu setja mismikla pressu á Þorstein um sæti.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og þar er farið yfir þá leikmenn sem helst knýja á um sæti í hópnum fyrir EM