Flauta þurfti leik Vals og Þróttar í Reykjavíkurmóti kvenna í knattspyrnu af í hálfleik vegna sífellt versnandi veðurs.
Leikurinn hefði án efa farið langt með að úrskurða um hvort liðið stæði uppi sem Reykjavíkurmeistari þar sem einungis er leikið í einum riðli kvennamegin og Valur og Þróttur efstu tvö liðin í honum.
Staðan var 2:0, Þrótti í vil, í hálfleik og staðan því góð fyrir Þróttara áður en dómari leiksins komst réttilega að þeirri niðurstöðu að ekki væri lengur hægt að spila á Origo-vellinum á Hlíðarenda, slík var snjókoman og vindurinn.
Andrea Rut Bjarnadóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoruðu mörk Þróttar.
Fyrir leikinn var Valur á toppnum með 12 stig eftir fjóra leiki og Þróttur í öðru sæti með 10 stig eftir jafnmarga leiki.
Eftir þessa innbyrðis viðureign liðanna eiga þau bæði eftir lokaleiki gegn liðum sem fastlega má búast við að þau vinni.
Ekki liggur fyrir hvenær eða hvort leiknum verði haldið áfram eða hvort hann verði spilaður síðar frá upphafi.