Aldrei jafn spennandi hópur hjá Víkingi

Arnar Gunnlaugsson þjálfari, Bjarki Björn Gunnarsson, Ari Sigurpálsson og Kári …
Arnar Gunnlaugsson þjálfari, Bjarki Björn Gunnarsson, Ari Sigurpálsson og Kári Árnason yfirmaður knattspyrnumála á kynningarfundinum í dag. mbl.is/Aron Elvar

Penninn var svo sannarlega á lofti í Víkinni í dag en knattspyrnudeild Víkings undirritaði fjölmarga samninga við leikmenn. Meðal þeirra var Ari Sigurpálsson en hann gengur til liðs við Víking frá ítalska liðinu Bologna. Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings var hæstánægður með undirritanirnar í dag.

„Við fengum veður af því fyrir einhverjum vikum síðan að Ari væri mögulega á heimleið. Maður þekkti hann frá því að hann spilaði hérna heima, hann var náttúrlega gríðarlega efnilegur í yngri flokkunum á sínum tíma og átti ágætis tímabil með HK 2020. Eins og gengur og gerist hafa hlutirnir ekki alveg gengið upp hjá Bologna og Ítalía vafalítið versta land í heimi til að vera í Covid. Þetta hefur verið erfiður en þroskandi tími fyrir hann úti og hann hefur lært mikið.“

Fyrir áramót talaði Arnar um það að Víkingur myndi að öllum líkindum bæta við sig miðverði þegar færi að nálgast vor.

„Það eru nokkur nöfn komin á blað hjá okkur. Við erum að reyna mikið og vonandi munum við geta gert eitthvað innan tveggja til þriggja vikna. Það er alveg klárt mál að við ætlum að reyna við mjög öflugan miðvörð - alveg gríðarlega öflugan. Þegar það tekst verður Víkingur með mest spennandi hóp sem félagið hefur nokkurn tímann verið með og jafnvel þótt víðar væri leitað.“

„Þessi nöfn eru bæði innan og utan landsteinanna. Við höfum verið að leita mikið og höfum ákveðna tegund af varnarmanni í huga. Það er náttúrlega gífurlega erfitt að fylla skarð Kára Árnasonar og Sölva Geirs en við teljum okkur vera kominn með ákveðinn lista af mönnum. Við þurfum að bregðast hratt við því við höfum ekkert endalausan tíma til að klára þau kaup ef svo má að orði komast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert