Knattspyrnumaðurinn Ari Sigurpálsson gekk í dag til liðs við Íslands- og bikarmeistara Víkings í Reykjavík en hann hefur verið í röðum Bologna á Ítalíu undanfarin tvö ár. Ari var kynntur til leiks á fréttamannafundi sem er að hefjast í Víkinni nú um hádegið.
Víkingar kaupa hann af ítalska félaginu og samningur Ara við Víking er til ársins 2025.
Ari er 18 ára gamall kantmaður sem er uppalinn hjá HK og hann fór þaðan árið 2019 til Bologna þar sem hann hefur leikið með unglingaliðum félagsins.
Hann kom aftur til HK sem lánsmaður hluta tímabilsins 2020 og hefur spilað 10 úrvalsdeildarleiki með Kópavogsliðinu og skorað eitt mark. Ari hefur leikið 24 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Víkingar kynntu við sama tækifæri að Erlingur Agnarsson og Kristall Máni Ingason hefðu skrifað undir nýja samninga til ársins 2024 og Júlíus Magnússon til ársins 2025. Ennfremur framlengdi Bjarki Björn Gunnarsson samning sinn til 2024 en hann var í láni hjá Þrótti í Vogum á síðasta tímabili.