„Mér leist svo vel á Víking“

Ari Sigurpálsson (t.v.) við undirskriftina í dag.
Ari Sigurpálsson (t.v.) við undirskriftina í dag. mbl.is/Aron Elvar

Ari Sigurpálsson gekk í dag til liðs við knattspyrnulið Víkings og mun leika með liðinu út árið 2025 hið minnsta. Víkingur hélt blaðamannafund í Víkinni í dag þar sem Ari var til viðtals.

„Ég heyrði fyrst af þessu fyrir 10-12 dögum en þá sagði umboðsmaðurinn minn mér að þetta væri möguleiki. Mér leist strax mjög vel á þetta og Arnar heyrði í mér á Zoom fundi. Þetta gerðist mjög hratt. Ég átti sex mánuði eftir af samningi úti og þeir vildu framlengja við mig. Mér leist ekki nógu vel á það upp á minn feril að gera en við heyrðum ekki í neinum öðrum liðum, mér leist svo vel á Víking.“

Víkingur er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari og taka þátt í Meistaradeildinni á árinu. Ari segist mjög spenntur fyrir komandi verkefnum.

„Þetta heillaði mjög mikið. Meistaradeildin er stór gluggi og ef maður stendur sig vel veit maður ekkert hvað gerist. Svo er geggjað að spila í góðu liði sem ætlar sér að berjast um titla í sumar.“

„Ég er í góðu formi eins og er og ætla að leggja mig allan fram. Markmiðið er auðvitað að fara út aftur en það kemur bara í ljós hvernig ég stend mig. Ég ætla ekkert að vera að stressa mig og ætla ekki heldur að hoppa á hvað sem er," sagði Ari sem verður 19 ára í næsta mánuði og fór til Bologna frá HK haustið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert