Víkingur hafnaði tilboðum í Kristal - framlengdi í dag

Kristall Máni Ingason fer ekki strax í atvinnumennsku.
Kristall Máni Ingason fer ekki strax í atvinnumennsku. mbl.is/Árni Sæberg

Ari Sigurpálsson skrifaði í dag undir samning við knattspyrnudeild Víkings og mun leika með liðinu út árið 2025 hið minnsta. Ari kemur til félagsins frá ítalska liðinu Bologna en Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var til viðtals á blaðamannafundi félagsins í dag. Þar var einnig tilkynnt að nokkrir leikmenn liðsins hafi framlengt samninga sína.

Ari er langt frá því að vera fyrsti ungi íslenski leikmaðurinn sem Víkingur fær heim úr atvinnumennsku. Hvernig fer þetta ferli fram hjá félaginu?

„Það er alveg hægt að hlægja af því að fyrsta árið var frekar erfitt, það gekk ekkert sérlega vel að fá þessa stráka til að koma heim. Í fyrsta lagi var liðið hérna ekkert burðugt og erfitt að fá fólk til að trúa á verkefnið. Svo koma Ágúst Hlynsson og Guðmundur Andri vorið 2019 og þá byrjar boltinn að rúlla. Júlíus kemur svo líka, við förum að ná árangri og strákarnir fara að taka framförum. Þá fara menn að komast út aftur og ég held að sú saga geri það að verkum að ungir strákar leita til Víkings sem fyrsta kost. Við náttúrlega fáum samt ekki alla sem við viljum, sumir fara eitthvað annað en það er bara flott, við getum ekki fengið alla. Ég held að þetta sé jákvæð þróun í íslenskum fótbolta, þessir strákar eru að koma heim, endurstilla sinn feril og eru gríðarlega ákveðnir í að fara út aftur. Ég segi alltaf við þá að ég hafi engan áhuga á að hafa þá lengi hérna.“

Arnar minntist á það að Víkingur hefði getað selt Kristal Mána Ingason út en ekkert hafi orðið úr því. Hann var einn af þeim sem framlengdu samninga sína við liðið í dag.

„Í fyrsta lagi voru tilboðin ekki nægilega góð. Í öðru lagi var hann ekkert að stressa sig á því að fara út. Ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga að tímabilið í fyrra var enginn dans á rósum fyrir hann. Það tók hann smá tíma að komast í gang en eins og hann er að þróast núna er hann á góðri leið með að verða einn sá besti, ef ekki sá besti, leikmaður deildarinnar. Á þessum unga aldri töldum ég, hann og fjölskyldan hans að framtíð hans væri best borgið með að taka að minnsta kosti eitt tímabil í viðbót hjá okkur og læra að þróa sinn leik enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert