Valur vann stórsigur þegar liðið tók á móti Þrótti úr Vogum í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í fyrstu umferð riðlakeppninnar í kvöld.
Leiknum lauk með 5:0-sigri Vals en þeir Rasmus Christiansen, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Guðmundur Andri Tryggvason skoruðu mörk Valsmanna í fyrri hálfleik.
Birkir Már Sævarsson og Rómeó Rögnvaldsson Johnsen bættu svo við sitthvoru markinu fyrir Valsmenn í síðari hálfleik og þar við sat.
Valsmenn eru með 3 stig í efsta sæti 1. riðils en Þróttarar eru án stiga á botninum. Þeir leika nú í fyrsta skipti í A-deild keppninnar eftir að hafa unnið sér sæti í 1. deild Íslandsmótsins í fyrsta skipti síðasta haust.
Þá vann Leiknir úr Reykjavík sigur gegn Keflavík í Nettóhöllinni í Keflavík í fimm marka leik þar sem Keflvíkingar leiddu 2:1 í hálfleik.
Daníel Finns Matthíasson jafnaði hins vegar metin fyrir Leikni á 72. mínútu áður en Andi Hoti tryggði Leiknismönnum sigur með marki á lokamínútunum.
Leiknir er með 3 stig í efsta sæti 3. riðils en Keflavík er án stiga.