Íris Una og Katla María Þórðardætur, tvíburasysturnar frá Keflavík, eru báðar komnar til liðs við knattspyrnulið Selfyssinga frá Fylki.
Íris og Katla eru tvítugar, leika báðar sem varnarmenn, og léku með Keflavík til ársins 2019. Þær hafa síðan leikið með Fylki í úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár.
Báðar hafa þær spilað 45 úrvalsdeildarleiki og Katla hefur skorað eitt mark en Íris ekkert. Íris lék 18 af þessum leikjum með Keflavík árið 2019 og Katla 17.
Þá hafa þær báðar leikið með yngri landsliðum Íslands á undanförnum árum en Katla á 38 landsleiki að baki og Íris 25. Þá var Katla í æfingahópi U23 ára landsliðs sem kallaður var saman til æfinga í síðasta mánuði.