Fá Reykjavíkurbikarinn afhentan á morgun

Ánægðir Þróttarar eftir að fyrsti Reykjavíkurmeistaratitillinn var í höfn.
Ánægðir Þróttarar eftir að fyrsti Reykjavíkurmeistaratitillinn var í höfn. mbl.is/Unnur Karen

Kvennalið Þróttar úr Reykjavík í knattspyrnu fær Reykjavíkurbikarinn afhentan á morgun. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem knattspyrnuráð Reykjavíkur sendi frá sér í dag.

Þróttur varð Reykjavíkurmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 6:1-sigur gegn Fjölni í lokaleik sínum í keppninni í Egilshöll í gær.

Enginn fulltrúi Knattspyrnuráðs Reykjavíkur mætti í Egilshöllina í gær til þess að veita Þrótturum viðurkenningu fyrir árangurinn og hefur Knattspyrnuráðið fengið harða gagnrýni á samfélagsmiðlum í dag.

Ráðið sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem það harmar atburði gærdagsins en í nýjustu tilkynningunni kemur fram að verðlaunin verði veitt í hálfleik í leik Þróttar og Fylkis í Lengjubikar kvenna sem fram fer í Egilshöll og hefst klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert