Knattspyrnumaðurinn Ástbjörn Þórðarson er eftirsóttur þessa dagana en FH hefur gert nokkur tilboð í hægri bakvörðinn samkvæmt heimildum mbl.is.
Fótbolti.net greindi fyrst frá þessu en Hafnfirðingar vilja fá Ástbjörn til þess að fylla skarðið sem Hörður Ingi Gunnarsson skildi eftir sig þegar hann gekk til liðs við norska B-deildarfélagið Sogndal á dögunum.
Ásbjörn, sem er 22 ára gamall og samningsbundinn Keflavík, er uppalinn í Vesturbænum hjá KR en hann hefur einnig leikð með ÍA, Víkingi úr Ólafsvík og Gróttu á ferlinum.
Alls á hann að baki 47 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað tvö mörk og þá á hann að baki 10 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.
Sjálfur vill leikmaðurinn ganga til liðs við FH en Keflvíkingar hafa hafnað öllum tilboðum Fimleikafélagsins enn sem komið er.