Hafnaði norsku atvinnumannaliði

Jason Daði Svanþórsson var lykilmaður í liði Breiðabliks á síðustu …
Jason Daði Svanþórsson var lykilmaður í liði Breiðabliks á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Knattspyrnumaðurinn Jason Daði Svanþórsson hafnaði því að ganga til liðs við norska B-deildarfélagið Sogndal á dögunum.

Þetta staðfesti Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við fótbolta.net.

Jason Daði, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Breiðablik frá uppeldisfélagi sínu Aftureldingu fyrir síðasta tímabil.

Hann skoraði sex mörk í 20 leikjum með Blikum á síðustu leiktíð þegar liðið endaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar eftir harða baráttu við Víking úr Reykjavík um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það kom tilboð frá fyrstu deildinni í Noregi, ágætis tilboð, en eftir að hafa skoðað þetta þá var hann meira til í að taka slaginn í sumar og taka bikar- og Evrópukeppni,“ sagði Eysteinn í samtali við fótbolta.net.

„Við vorum mjög ánægðir með hans ákvörðun í því. Tökum alltaf tillit til leikmanna í svona hlutum og leyfum þeim að hafa skoðanir á hlutunum að sjálfsögðu,“ bætti Eysteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka