Hefði aldrei gerst í karlaboltanum

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttara.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefði aldrei gerst í karlaboltanum,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Þróttar úr Reykjavík í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Þróttarar urðu í gær Reykjavíkurmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir öruggan 6:1-sigur gegn Fjölni í Egilshöll í lokaleik sínum í mótinu.

Það var hins vegar enginn frá Knattspyrnuráði Reykjavíkurborgar mættur í Egilshöllina til þess að veita meisturunum viðurkenningu fyrir árangurinn og því varð ekkert úr því að Reykjavíkurbikarinn færi á loft í gær.

„Eftir sigurinn stóðum við bara þarna úti á  velli og biðum eftir því að eitthvað myndi gerast. Formaðurinn hringir í einhvern frá Knattspyrnuráði Reykjavíkur og þá fáum við að vita það að það verður engin bikarafhending sem var ákveðið sjokk.

Þetta var í fyrsta sinn í sögu félagsins sem við vinnum þessa keppni og það er langt síðan Þróttur sem félag hefur unnið bikar. Það var fullt af stuðningsmönnum í stúkunni sem voru spenntir að sjá bikarinn fara á loft og þetta voru því risastór vonbrigði fyrir alla og þá sérstaklega leikmennina sem voru vægast sagt ósáttir,“ sagði Nik.

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, til hægri en í aðdraganda …
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, til hægri en í aðdraganda bikarúrslitaleiks kvenna á síðustu leiktíð var birt mynd af Elísu Viðarsdóttur, fyrirliða Vals, í stað Álfhildar í auglýsingu fyrir leikinn. Morgunblaðið/Kris

Þakklátur fyrir stuðninginn

Samfélagsmiðlar hafa logað í allan dag vegna uppákomunnar og hefur Knattspyrnuráð Reykjavíkur sætt harðri gagnrýni en ráðið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var velvirðingar á mistökunum sem áttu sér stað í gær.

„Við höfum fundið fyrir ótrúlega miklum stuðningi frá öllum í dag sem við erum auðvitað bara mjög þakklát fyrir. Því miður þá gerast svona hlutir allt of oft í kvennaboltanum og það er ekki langt síðan að við spiluðum úrslitaleik í Mjólkurbikarnum þar sem var mynd af fyrirliða Vals í auglýsingu fyrir leikinn. 

Knattspyrnuráð Reykjavíkur hefur beðist afsökunar á þessu en auðvitað áttu þau að gera það strax í gær. Það var strax farið í það að finna einhverjar afsakanir um að bikarinn sé alltaf afhentur að móti lokni sem er bara þvæla. Karlalið Vals fékk sinn bikar á dögunum og Fylkir fékk sinn bikar kvennamegin árið 2020 um leið og lokaleik þeirra lauk, þrátt fyrir að mótinu væri ekki lokið. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur,“ bætti Nik við.

Í yfirlýsingu sem Knattspyrnuráð Reykjavíkur sendi frá sér í dag kemur fram að Þróttarar muni fá Reykjavíkurbikarinn afhentan í hálfleik í leik Þróttar og Fylkis í deildabikarnum á morgun.

Þróttarar fögnuðu sigri í Reykjavíkurmótinu í fyrsta sinn í sögu …
Þróttarar fögnuðu sigri í Reykjavíkurmótinu í fyrsta sinn í sögu félagsins í gær. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert