Knattspyrnuráð Reykjavíkur hefur beðið kvennalið Þróttar í Reykjavík afsökunar á því að liðinu skyldu ekki hafa verið afhent verðlaun sín í Egilshöllinni í gærkvöld eftir að það varð Reykjavíkurmeistari í fyrsta skipti.
Í yfirlýsingu sem KRR sendi frá sér segir:
Á sama tíma og Knattspyrnuráð Reykjavíkur (KRR) óskar Reykjavíkurmeisturum Þróttar í kvennaflokki innilega til hamingju með titilinn vill ráðið biðjast einlæglega afsökunar á að ekki hafi farið farið fram verðlaunaafhending að loknum síðasta leik þeirra í mótinu. Um mistök er að ræða en leikir höfðu riðlast vegna veðurs og COVID 19 sem varð til þess að KRR yfirsást tímasetning leiksins.
Þróttur hefur náð gríðarlegum árangri á þessu leiktímabili og er vel að titlinum komin.
Verið er að skoða hvenær verðlaunaafhending geti farið fram og í samráði við Þrótt.
Við drögum lærdóm af þessu og mun KRR í samráði við aðildarfélög bæta verklag sitt svo mistök sem þessi endurtaki sig ekki.
Virðingarfyllst,
f.h. KRR
Steinn Halldórsson
Formaður
Jónas Sigurðsson
Formaður mótanefndar