Tillögur um breytingar á Íslandsmótinu fyrir ársþing KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands hefur birt þær tillögur sem lagðar verða fram á ársþingi sambandsins laugardaginn 26. febrúar.

Þær snúa allar að breytingum á Íslandsmótinu en gangi þær allar í gegn mun verða keppt í sjö deildum í stað fimm í meistaraflokki karla frá og með árinu 2023.

Lagt er til að í úrvalsdeild karla verði bætt við fimm umferðum að loknum hefðbundnum 22 umferðum liðanna tólf í deildinni. Þá spili annars vegar sex efstu liðin innbyrðis og hins vegar sex neðstu liðin, og þau taki með sér öll stig úr fyrri hluta mótsins. Þessi breyting á að taka gildi strax á þessu ári þannig að leikið verður eftir þessu fyrirkomulagi á komandi Íslandsmóti ef tillagan verður samþykkt. Þá leika liðin 27 leiki í stað 22 og tímabilinu lýkur í lok október en ekki í lok september.

Lagt er til að í úrvalsdeild kvenna verði leikjum fjölgað á sama hátt, frá og með tímabilinu 2023. Þá leiki annars vegar sex efstu liðin innbyrðis í seinni hluta mótsins, fimm leiki á lið, og spili því samtals 23 leiki í stað 18. Fjögur neðstu liðin leiki innbyrðis og spili 21 leik í stað 18. 

Lagt er til að í 1. deild karla verði frá og með árinu 2023 tekið upp umspil. Aðeins efsta liðið fari beint upp í úrvalsdeildina, í stað tveggja efstu, en í staðinn komi umspil liðanna í öðru til fimmta sæti um seinna úrvalsdeildarsætið.

Lagt er til að í stað þess að öll lið sem ekki komist í tólf liða 3. deild karla spili í riðlaskiptri 4. deild verði stofnuð nú 4. deild, 5. deild og  Utandeild KSÍ. Í 4. deild verði tíu lið, í 5. deild verði sextán lið í tveimur átta liða riðlum, en önnur lið leiki í Utandeild KSÍ. Þetta tæki gildi frá og með tímabilinu 2023. Með þessu yrði kominn fastur fjöldi á liðin í deildakeppninni, 74 lið lékju í sex deildum, frá úrvalsdeild og niður í 5. deild, en í Utandeild yrði jafnan leikið um tvö sæti í deildakeppninni, þ.e. í 5. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka