Þór/KA vann Keflavík 3:0 í riðli 2 í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í Boganum í dag.
Markalaust var í hálfleik en á 56. mínútu kom Margrét Árnadóttir heimakonum yfir með marki úr vítaspyrnu. Það var svo Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sem bætti við tveimur mörkum og kláraði leikinn fyrir Þór/KA. Fyrra markið kom á 67. mínútu og það seinna í uppbótartíma.
Þór/KA er því á toppi riðilsins eftir einn leik og Keflavík situr á botninum. Einn leikur er eftir í fyrstu umferð en leik Vals og Aftureldingar sem átti að fara fram í gær var frestað.