„Það er bara þannig að á Íslandi hafa hlutirnir aðeins staðnað þegar kemur að kvennaknattspyrnunni og því ákváðum við að endurvekja hagsmunasamtökin,“ sagði Anna Þorsteinsdóttir, talskona hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna í samtali við mbl.is í dag.
Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna voru stofnuð árið 1990 en samtökin hafa verið í dvala undanfarin ár.
Þau voru endurvakin á dögunum og verður haldin formlegur stofnfundur samtakanna hinn 25. febrúar í Iðnó í Reykjavík.
„Þegar að við horfum til Evrópu þá eru mörg lönd að síga fram úr okkur. Það er verið að setja meiri pening í kvennaboltann og aðsókn á leiki hjá kvennaliðum hefur aukist til muna. Okkur fannst kominn tími til þess að taka þátt í því sem er að gerast í Evrópu.
Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr undanfarna daga og það er margt jákvætt að gerast innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem snýr að kvennaboltanum. Í fyrsta sinn í sögu KSÍ er kvenkynsformaður að störfum og okkur fannst þetta því góður tímapunktur til þess að endurvekja samtökin,“ sagði Anna.
Alls eru rúmlega 500 meðlimir í Facebook-síðu samtakanna sem var stofnuð um helgina.
„Það hefur ákveðin mismunun átt sér stað milli karla og kvenna í fótbolta. Þetta snýst líka um virðingu og orðræðu og við finnum það mjög sterkt að við getum fengið fleiri í lið með okkur í þessari baráttu. Það hefur verið talað um hlutina í litlum hópum í gegnum tíðina en nú er rétti tíminn til þess að sameina baráttuna fyrir íslenskar knattspyrnukonur.
Við viljum fyrst og fremst auka jafnrétti innan hreyfingarinnar og það er mikil þörf á því. Eins og þetta horfir við okkur núna sjáum við fram á 500 manna samtök og ástæðan fyrir því að við vildum halda stofnfundinn 25. febrúar er sú að við viljum sýna KSÍ í verki að við séum tilbúin í ákveðna vegferð með sambandinu sem snýr að því að auka jafnrétti, virðingu og ásýnd íslenskrar kvennaknattspyrnu.“
Anna ítrekar að allir sem láti sig málefnið varða séu velkomnir í samtökin.
„Samtökin eru opin öllum og við ákváðum að einskorða þetta ekki bara við knattspyrnukonur heldur eru allir velkomnir sem vilja vinna að settum markmiðum, hvort sem það eru leikmenn, fyrrverandi leikmenn, áhugafólk um fótbolta eða bara foreldrar barna og unglinga sem stunda eða hafa stundað íþróttina.
Við leggjum ákveðna áherslu á það að stjórn sambandsins verði eins fjölbreytt og mögulegt er. Það eru stór verkefni fram undan hjá okkur og við höfum fundið fyrir miklum stuðningi líka frá stofnendum samtakanna frá árinu 1990. Sá stuðningur hefur skipt okkur gríðarlega miklu máli frá því við lögum af stað með þetta verkefni á nýjan leik,“ bætti Anna við í samtali við mbl.is.