Norðfirðingurinn Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, reiknar með því að nota alla leikmennina í landsliðshópnum á fjögurra þjóða mótinu sem er að hefjast í Kaliforníu á morgun.
Þar mun Ísland leika þrjá leiki en sá fyrsti verður annað kvöld á móti Nýja-Sjálandi.
„Ég reikna með að allir leikmenn spili í mótinu. Þær eru allar heilar og það plan heldur eins og er. Ég geri því ráð fyrir að nota allar og dreifa álaginu eitthvað enda stutt á milli leikja. Töluverðar bryetingar gætu orðið á byrjunarliðinu á milli leikja en eftir fyrstu tvo leikina verður staðan tekin. Fyrir þriðja leikinn þurfum að meta í hvar leikmenn eru staddir og fylgjast sérstaklega með leikmönnum sem eru á undirbúningstímabili hjá sínum félagsliðum. Frekar fáir leikmenn í hópnum eru á miðju keppnistímabili,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi hjá KSÍ í dag sem fram fór í gegnum fjarfundarbúnað.
Lið Nýja-Sjálands hefur leikið í lokakeppni HM síðustu fjögur skipti og er því öflugur andstæðingur.
„Við búum okkur undir hörkuleik. Þær eru agressífar og duglegar á vellinum. Þær eiga það til að pressa framarlega og við þurfum að sýna okkar besta til að vinna,“ sagði Þorsteinn en tók einnig fram að í móti sem þessu þá sé meiri áhersla lögð á að þróa leik íslenska liðsins heldur en að kortleggja andstæðingana.
„Við komum til með að prófa hluti í þessu leikjum. Við viljum þróa okkar leik áfram og viljum geta mætt mismunandi liðum með mismunandi áherslur. Bæði Nýja-Sjáland og Bandaríkin spila öðruvísi en mörg Evrópulið. Við leitum eftir því að geta spilað á fjölbreyttan hátt og við viljum geta farið nokkrar leiðir í að opna varnir andstæðinganna, “ sagði Þorsteinn og sagðist ekki greina leikina í Bandaríkjunum út frá andstæðingum sem Ísland mun mæta á EM í sumar.
Þorsteinn sagði aðstæðurnar vera góðar vestanhafs og ekki sé yfir neinu að kvarta.