Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, telur að fjögurra þjóða mótið í Bandaríkjunum sem hefst á morgun geti verið ágætur undirbúningur fyrir lokakeppni EM í sumar hjá íslenska liðinu.
„Þótt umgjörðin sé ekki eins stór og á EM en þá mun þetta minna á stórmót að einhverju leyti. Ég veit ekki hvernig miðasalan hefur gengið en ég reikna með mörgum áhorfendum þegar Bandaríkin eru að spila. Þeir leikmenn hjá okkur sem hafa lítið kynnst því að spila fyrir framan marga áhorfendur kynnast því þá væntanlega. Einnig er ágætt fyrir leikmenn að kynnast því að spila nokkra leiki á stuttum tíma vegna þess að þannig er umhverfið á stórmótum. Leikmenn geta lært hvernig á að hugsa um sig og fleira þess háttar,“ sagði Dagný á blaðamannafundi hjá KSÍ í dag.
Íslenska landsliðið hefur oft á síðustu árum leikið í Algarve-bikarnum á þessum tíma árs en leikur nú á mótinu í Bandaríkjunum í staðinn. „Það skiptir ekki öllu máli hvaða mót þetta eru heldur skipta andstæðingarnir máli. Algarve er flott mót en mótið sem við fórum á í fyrra var það einnig. Í þessu móti í Bandaríkjunum er hvað stærst umgjörð miðað við mót á þessum árstíma vegna þess hve stór knattspyrna kvenna er í Bandaríkjunum,“ sagði Dagný en sjálf lék hún í Bandaríkjunum bæði í háskóla og sem atvinnumaður. Varð hún bandarískur meistari með Portland.
„Ég viðurkenni að ég var mjög spennt fyrir þessari ferð. Ég var hérna í sex og hálft ár og Bandaríkin eru í þeim skilningi mitt annað heimili.“
Ísland mætir Tékklandi í mótinu en þjóðirnar eru einnig saman í undankeppni HM. Ísland vann Tékkland í Laugardalnum síðasta haust og liðin mætast aftur í undankeppninni í apríl. „Manni finnst maður oft vera að spila við þær því við höfum verið að lenda á móti þeim í
undankeppnum síðustu árin. En það skiptir kannski ekki öllu máli þótt við spilum við þær hér enda eru þetta allt sterkar þjóðir. En við vitum væntnalega enn meira um þær þegar við mætum þeim í apríl eftir leikinn hérna,“ sagði Dagný sem var tilnefnd sem leikmaður mánaðarins á Englandi í janúar fyrir frammistöðuna með West Ham.
Dagný sagði skemmtilegt að tekið sé eftir því sem hún geri á vellinum en þegar liðinu gangi vel þá gangi einnig betur persónulega.“