Knattspyrnukonan reynda Kristín Erna Sigurlásdóttir er gengin til liðs við uppeldisfélagið ÍBV á nýjan leik eftir þriggja ára fjarveru.
Kristín lék með meistaraflokki ÍBV frá 2009 til 2019, ef undanskilið er eitt ár hjá Fylki. Hún lék síðan með KR 2020 og Víkingi 2021 en hefur í vetur spilað með ítalska C-deildarliðinu Apulia Trani.
Kristín skoraði 13 mörk í 15 leikjum fyrir Víking í 1. deildinni á síðasta ári. Í úrvalsdeildinni hefur hún skorað 45 mörk í 136 leikjum og á fyrstu árunum í meistaraflokki skoraði hún 46 mörk í 43 leikjum ÍBV í 1. deildinni.