Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, var sáttur við 1:0-sigur á Nýja-Sjálandi á alþjóðlega mótinu She Believes Cup í nótt. Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmarkið eftir tæpa mínútu, en íslenska liðið hafði nokkra yfirburði framan af leik.
„Ég var ánægður með fyrstu 30. Við sköpuðum færi og vorum með yfirburði en svo hægðist á okkur og þær komust betur inn í leikinn. Seinni hálfleikurinn var erfiðari en að sama skapi skapaði Nýja-Sjáland sér ekki eitt einasta opið færi,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi eftir leik.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir þurfti ekki að taka á honum stóra sínum í leiknum, þar sem Nýja-Sjálandi tókst illa að skapa sér færi gegn sterkri íslenskri vörn.
„Ég held Cecilía hafi aldrei þurft að skutla sér. Við náðum að loka á þær og þetta voru mest megnis fyrirgjafir. Þegar þú ert undir pressu má þér ekki fara að líða illa og við gerðum vel í að loka á það sem þær voru að gera. Auðvitað er auðveldara að vinna leiki ef þú færð ekki á þig mark,“ sagði Þorsteinn.