Aron Jóhannsson, þrautreyndur atvinnumaður í knattspyrnu, kom við sögu hjá Val í fyrsta skipti í Lengjubikarnum í dag.
Úrvalsdeildarliðin Valur og ÍBV gerðu 1:1 jafntefli á Hlíðarenda en Aron kom inn á sem varamaður hjá Val í síðari hálfleik. Það gerði einnig Ágúst Eðvald Hlynsson sem einnig lék sinn fyrsta leik fyrir Val í keppninni. Hólmar Örn Eyjólfsson var hins vegar ekki á leikskýrslu en Valsmenn sömdu við hann á dögunum.
Spánverjinn Sito kom ÍBV yfir á 19. mínútu en Akureyringurinn Almarr Ormarsson jafnaði fyrir Val á 54. mínútu.