Ísland er í efsta sæti eftir fyrstu umferð She Believes Cup, alþjóðlega knattspyrnumótsins í Bandaríkjunum, og Dagný Brynjarsdóttir hefur skorað eina mark þess til þessa.
Seinni leikur mótsins í nótt, milli Bandaríkjanna og Tékklands, endaði nefnilega 0:0 en hann var leikinn á sama velli og viðureign Íslands og Nýja-Sjálands þar sem Dagný tryggði íslenskan sigur, 1:0, með marki á fyrstu mínútunni.
Ísland leikur næst við Tékkland seint á sunnudagskvöldið, klukkan 23 að íslenskum tíma, og sá leikur fer einnig fram í Carson í Kaliforníu. Lokaleikurinn er gegn liði Bandaríkjanna og hann fer fram í Frisco í Texas og er lokaleikur mótsins aðfaranótt fimmtudags en hann hefst klukkan tvö um nóttina að íslenskum tíma.