Knattspyrnukonan Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir hefur gengið frá félagaskiptum frá Breiðabliki í Val.
Í gær var gengið frá skiptum Þórdísar til Breiðabliks frá Apollon Limassol á Kýpur en þar lék hún frá byrjun ágúst eftir að hafa spilað með Blikum fyrri hluta tímabilsins.
Hún lék átta deildarleiki með Apollon og skoraði í þeim sex mörk og spilaði einnig fjóra leiki með liðinu í undankeppni Meistaradeildar Evrópu síðasta haust.
Þórdís er 28 ára gömul og hefur leikið 122 úrvalsdeildarleiki hér á landi og skorað í þeim 24 mörk. Hún á tvo A-landsleiki að baki en hefur auk Breiðabliks spilað með Stjörnunni, Þór/KA, KR og sænsku liðunum Älta og Kristianstad.