KA og FH gerðu í kvöld 1:1-jafntefli er liðin mættust í Lengjubikar karla í fótbolta í Boganum á Akureyri.
Ásgeir Sigurgeirsson kom KA yfir á 59. mínútu er hann slapp einn í gegn eftir huggulega sókn.
FH-ingar gáfust ekki upp því Kristinn Freyr Sigurðsson, sem kom til félagsins frá Val eftir síðustu leiktíð, jafnaði með glæsilegu marki á 84. mínútu og þar við sat.
Bæði lið eru með fjögur stig eftir tvo leiki en FH vann 2:0-sigur á Selfossi í fyrsta leik og KA vann Grindavík með sömu tölum.