Markaregn í deildabikarnum

Tvíburabræðurnir Indriði Áki (t.v.) og Alexander Már (fyrir miðju) Þorlákssynir …
Tvíburabræðurnir Indriði Áki (t.v.) og Alexander Már (fyrir miðju) Þorlákssynir voru báðir á skotskónum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm leikjum er lokið í A-deild deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarnum, í dag. Í leikjunum fimm voru skoruð alls 22 mörk.

Í riðli 1 mættust HK og Víkingur úr Reykjavík í Kórnum.

Helgi Guðjónsson kom Víkingum á bragðið á 39. mínútu og Nikolaj Hansen tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé.

Snemma í síðari hálfleik skoraði Erlingur Agnarsson þriðja mark Víkinga og aðeins þremur mínútum síðar, á 53. mínútu, minnkaði Teitur Magnússon muninn fyrir HK.

Þar við sat og góður 3:1-sigur Víkinga niðurstaðan.

Í sama riðli fékk Grótta Þrótt úr Vogum í heimsókn á Seltjarnarnes og lauk leiknum með 2:2 jafntefli.

Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Luke Rae komu Gróttu í 2:0 áður en Magnús Ingi Einarsson og Ragnar Þór Gunnarsson jöfnuðu metin fyrir Þrótt.

Í riðli 2 fengu Skagamenn KV í heimsókn í Akraneshöllina og vann ÍA að lokum afar öruggan 4:0-sigur.

Viktor Jónsson, Jón Gísli Eyland Gíslason, Kaj Leo í Bartalsstovu og Eyþór Aron Wöhler skoruðu mörk Skagamanna.

Í riðli 4 vann Fylkir þá góðan 2:0-sigur á Grindavík í Árbænum þar sem Benedikt Daríus Garðarsson skoraði bæði mörk Árbæinga.

Í riðlinum mættust einnig Fram og Selfoss í Safamýrinni og þar var boðið upp á sannkallaða markaveislu.

Gary Martin kom gestunum frá Selfossi yfir snemma leiks en Framarar svöruðu með fjórum mörkum. Tvíburabræðurnir Alexander Már og Indriði Áki Þorlákssynir komust þar báðir á blað.

Fyrst jafnaði Alexander Már metin og Indriði Áki kom svo Fram í forystu. Albert Hafsteinsson bætti við þriðja markinu úr vítaspyrnu áður en flautað var til hálfleiks.

Alexander Már bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Fram áður en Martin minnkaði muninn í 4:2.

Selfyssingar urðu því næst fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Andri Þór Sólbergsson rak svo smiðshöggið á lokamínútunni og tryggði Fram frækinn 6:2-sigur.

Þrír leikir fara fram til viðbótar í A-deild karla í dag; leikir Kórdrengja og Aftureldingar, sem nú stendur yfir, í riðli 3, Þórs frá Akureyri og Stjörnunnar í riðli 2 og KA og FH í riðli 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert