KR vann sætan 3:2-sigur á ÍBV er liðin mættust í Lengjubikar kvenna í fótbolta í Egilshöllinni í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik færðist meira fjör í leikinn í seinni hálfleik en Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 48. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Kristín Erna Sigurlásdóttir.
KR komst aftur yfir á 65. mínútu er Katla Guðmundsdóttir skoraði. Telma Sól Óðinsdóttir jafnaði fyrir ÍBV á 81. mínútu en KR skoraði sigurmarkið strax í næstu sókn þegar Bergdís Fanney skoraði sitt annað mark og þar við sat.