Þjálfaralausir Vestfirðingar náðu jafntefli

Daníel Finns Matthíasson skoraði tvö mörk fyrir Leikni.
Daníel Finns Matthíasson skoraði tvö mörk fyrir Leikni. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Vestri gerði góða ferð í höfuðborgina og nældi í 2:2-jafntefli við Leikni úr Reykjavík í riðli 3 í A-deild karla í deildabikarnum í knattspyrnu, Lengjubikarnum, í Egilshöll í gærkvöldi.

Leiknir leikur í úrvalsdeild og Vestri í B-deild. Gestirnir að Vestan náðu forystunni eftir stundarfjórðungs leik þegar Pétur Bjarnason skoraði.

Staðan var 0:1 í hálfleik en eftir klukkutíma leik jafnaði Daníel Finns Matthíasson metin fyrir Leikni.

Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, fékk beint rautt spjald á 73. mínútu en einum færri tókst Leiknismönnum að ná forystunni.

Það gerðu þeir á 87. mínútu þegar Daníel Finns skoraði sitt annað mark og virtist vera að tryggja Leikni sigurinn.

Pétur var þó ekki á því og skoraði sömuleiðis sitt annað mark á 89. mínútu, jafnaði metin og þar við sat.

Vestri er enn í leit að þjálfara eftir að Jón Þór Hauksson tók við ÍA á dögunum. Vestramenn léku því án eiginlegs aðalþjálfara í gær en það gerðu Leiknismenn einnig þar sem Sigurður Heiðar Höskuldsson aðalþjálfari var ekki á hliðarlínunni í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert