Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, segir að íslenska liðið sé spennt fyrir því að mæta Tékklandi í Carson í Kaliforníu í She Believes-mótinu í kvöld.
Ísland bar sigurorð af Nýja-Sjálandi, 1:0, í fyrsta leik mótsins fyrr í vikunni og vonast Svava Rós til þess að íslenska liðið geti byggt á góðri frammistöðu þess í þeim leik.
„Mér líst bara mjög vel á þetta. Við erum ótrúlega spenntar. Þetta var sterkur leikur, fyrsti leikurinn [gegn Nýja-Sjálandi]. Við fórum af krafti í hann og það gekk bara ágætlega,“ sagði hún í samtali við KSÍ TV.
Tékkland er með Íslandi í undanriðli fyrir HM 2023 og skoraði Svava Rós eitt marka Íslands í fræknum 4:0-sigri síðastliðið haust. Liðin mætast aftur í gríðarlega mikilvægum leik í Tékklandi 12. apríl. Tékkar náðu óvæntu jafntefli, 0:0, gegn heimsmeisturum Bandaríkjanna í fyrstu umferðinni í vikunni. Henni líst vel á að mæta þeim aftur svo stuttu síðar.
„Það er bara gaman, Tékkland er með sterkt lið. Ég geri ráð fyrir því að við og Tékkland munum breyta eitthvað á milli leikja þannig að það verður bara gaman að spila á móti þeim.
Við förum í hvern og einn leik til að vinna hann og vonum að það sem við leggjum upp með að gera gangi upp,“ sagði Svava Rós að lokum við KSÍ TV.
Leikur Íslands og Tékklands hefst klukkan 23 í kvöld og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.