Íslenska kvennalandsliðið er með fullt hús stiga eða 6 stig eftir fyrstu tvo leiki sína á alþjóðlega mótinu She Believes Cup í Bandaríkjunum eftir sigur gegn Tékklandi í Carson í Kaliforníu í kvöld.
Þorsteinn Halldórsson tefldi fram gjörbreyttu liði, gerði tíu breytingar á byrjunarliðinu frá sigrinum á Ný-Sjálendingum og aðeins Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var aftur meðal þeirra sem hófu leik.
Leiknum lauk með 2:1-sigri íslenska liðsins en það voru þær Natasha Anasi og Selma Sól Magnúsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.
Á 11. mínútu tók Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tók hornspyrnu sem Tékkar hreinsuðu frá marki. Boltinn barst til Amöndu Andradóttur sem fór illa með tvo varnarmenn Tékklands og hún átti svo frábæra fyrirgjöf með vinstri fæti á fjærstöngina.
Þar var mætt Natasha Anasi sem stangaði boltann af miklum krafti í hornið fjær og staðan orðin 1:0, íslenska liðinu í vil, en þetta var fyrsta landsliðsmark Natöshu.
Selma Sól Magnúsdóttir tvöfaldaði forystu íslenska liðsins á 18. mínútu eftir laglegt uppspil íslenska liðsins en Karolína Lea lagði þá boltann snyrtilega á hana rétt utan teigs.
Selma Sól lagði boltann fyrir sig og átti svo þrumuskot, beint í fjærhornið, sem Alexandra Vanícková réð ekki við í marki Tékkanna.
Tékkar pressuðu íslenska liðið mikið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en þeim tókst ekki að koma boltanum í netið og staðan því 2:0 í hálfleik.
Tékkar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu nokkur frábær tækifæri til þess að koma boltanum í netið en alltaf sá Telma Ívarsdóttir í marki íslenska liðsins við þeim. Telma lék sinn fyrsta A-landsleik.
Michaela Khýrová minnkaði muninn fyrir Tékkland á 86. mínútu þegar hún slapp ein í gegn um vörn íslenska liðsins en hún gerði vel í að fara framhjá Telmu í markinu áður en hún lagði boltann í tómt markið.
Lengra komust Tékkar hins vegar ekki og íslenska liðið fangaði sínum öðrum sigri á mótinu.
Ísland er með 6 stig í efsta sætinu og hefur tveggja stiga forskot á Bandaríkin en liðin mætast í hreinum úrslitaleik á fimmtudaginn kemur um efsta sætið þar sem íslenska liðinu dugar jafntefli. Bandaríkin eru með 4 stig, Tékkland eitt og Nýja-Sjáland er án stiga.