KR vann afskaplega öruggan sigur á Vestra þegar liðin mættust í riðli 3 í A-deild deildabikars karla, Lengjubikarnum, í Egilshöll í dag.
Staðan var 5:0 í hálfleik eftir að Kristján Flóki Finnbogason og Ægir Jarl Jónasson höfðu skorað tvö mörk hvor um sig og Stefan Alexander Ljubicic eitt.
Sigurður Bjartur Hallsson bætti við sjötta markinu snemma í síðari hálfleik áður en Sergine Modou Fall minnkaði muninn fyrir Vestra um hann miðjan.
Það reyndist síðasta mark leiksins og niðurstaðan því þægilegur 6:1-sigur KR.
KR er búið að sigra fyrstu tvo leiki sína í riðli 3 og er á toppnum með 6 stig. Vestri er með eitt stig í fjórða sæti riðilsins.