„Við erum búnar að koma okkur í frábæra stöðu í þessum riðli og þetta eru leikirnir sem við viljum spila," sagði Elísa Viðarsdóttir sem var fyrirliði Íslands í sigurleiknum gegn Tékkum, 2:1, á alþjóðlega mótinu She Believes Cup í Carson í Kaliforníu í nótt.
Ísland er með sex stig eftir tvo leiki og mætir Bandaríkjunum í hreinum úrslitaleik í Frisco í Texas aðfaranótt fimmtudagsins.
„Þetta er langbesti undirbúningurinn sem við getum mögulega fengið fyrir stórmótið í sumar, þannig að leikurinn á miðvikudaginn verður svo sannarlega prófraun fyrir okkur og við ætlum að fara alla leið í þessu móti, það er engin spurning," sagði Elísa í viðtali á samskiptamiðlum KSÍ.
Um leikinn í nótt sagði Elísa:
„Fyrst og fremst fannst mér við pressa þær vel á réttum svæðum á vellinum og vinna boltann á góðum stöðum. Þannig sköpuðum við okkur svæði sem við gátum nýtt okkur. Að lokum held ég að við höfum nýtt okkar færi í leiknum.
Mér fannst við samt frekar þéttar til baka og tókum góðar færslur þegar var búið var að spila okkur út, og þéttum réttu svæðin á vellinum. Ég held að það hafi verið munurinn, við höfum verið þéttar í þeirra færum og náðu að komast í veg fyrir þær á síðustu stundu."