„Ég missti mig aðeins“

Natasha Anasi skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í nótt.
Natasha Anasi skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í nótt. Ljósmynd/KSÍ

„Þetta var algjörlega geggjað,“ sagði Natasha Anasi, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum eftir 2:1-sigur Íslands gegn Tékklandi á alþjóðlega mótinu She Believes Cup í Carson í Kaliforníu í nótt.

Natasha, sem er þrítug, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Tékklandi í nótt með frábærum skalla eftir laglega fyrirgjöf Amöndu Andradóttur.

Þetta var fimmti landsleikur Nathöshu sem er fædd í Texas í Bandaríkjunum en hún fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2019.

„Ég missti mig aðeins þegar ég skoraði og það að skora fyrsta landsliðsmarkið í Bandaríkjunum gerði þetta ennþá sætara,“ sagði Natasha.

„Þetta var virkilega erfiður leikur að spila en við ætluðum okkur sigur í leiknum og það tókst. Ég er virkilega þakklátt fyrir traustið sem ég fékk frá þjálfaranum og þetta var draumaleikur fyrir mig.

Við viljum vinna alla þá leiki sem við spilum og næst á dagskrá er úrslitaleikur við Bandaríkin, í Texas, og ég gæti ekki verið spenntari,“ bætti Natasha við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert