Geggjað að vera komnar í úrslitaleik

Selma Sól Magnúsdóttir á æfingu í Kaliforníu.
Selma Sól Magnúsdóttir á æfingu í Kaliforníu. Ljósmynd/KSÍ

Selma Sól Magnúsdóttir skoraði seinna mark Íslands í sigurleiknum gegn Tékklandi í nótt, 2:1, í She Believes Cup, alþjóðlega mótinu, í Carson í Kaliforníu, og sagði að það væri geggjað að eiga fyrir höndum úrslitaleik gegn Bandaríkjunum.

„Þetta var mikil baráttuleikur þar sem við áttum okkar kafla og þær áttu sína kafla. Mér fannst við standa okkur vel varnarlega, þegar þær áttu sína kafla tókst okkur að spila okkar varnarleik, og síðan nýttum við okkar færi vel," sagði Selma í viðtali á samskiptamiðlum KSÍ en þetta var hennar annað mark í sautján landsleikjum.

Um markið sagði Selma:

„Það var oft í fyrri hálfleiknum pláss hægra megin á vellinum og ég reyndi að halda breiddinni. Karólína fékk boltann á miðjunni, ég hélt mig utarlega og fékk hann síðan í hlaup, sá að fjærhornið var opið og ákvað að taka skotið.“

Um úrslitaleikinn aðfaranótt fimmtudags sagði Selma:

„Við förum í leikinn með því hugarfari að gefa allt í þetta og hafa trú á verkefninu. Það er geggjað að vera komnar í úrslitaleik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert