Guðni Bergsson sem var formaður Knattspyrnusambands Íslands frá febrúar 2017 til ágústloka 2021 hefur sent kveðju til knattspyrnuhreyfingarinnar í ársskýrslu KSÍ.
Skýrslan hefur verið birt á vef KSí vegna ársþingsins um næstu helgi og í hefðbundnu ávarpi formanns, Vöndu Sigurgeirsdóttur, kveðst hún hafa boðið Guðna að skrifa stutta kveðju til hreyfingarinnar þar sem þau hafi bæði verið formenn KSÍ á árinu 2021.
Kveðja Guðna er svohljóðandi:
Kæru félagar!
Mig langaði að kveðja ykkur á þessum vettvangi og þakka fyrir mig.
Margt gott hefur annars áunnist á undanförnum árum bæði innan vallar sem utan.
KSÍ hefur tekið breytingum með nýju markaðssviði og knattspyrnusviði sem hefur skilað stórauknum markaðstekjum og markvissara starfi á knattspyrnusviðinu með sérstökum yfirmanni þess.
Við höfum látið jafnréttismál okkur varða með jöfnun stigabónusa og ítarlegri úttekt á kvennafótboltanum í viðamikilli skýrslu ásamt aðgerðarplani. Einnig náðist sá áfangi eftir síðasta ársþing að hlutfall kvenna í nefndum KSÍ fór yfir 30% eins og að hafði verið stefnt.
Landsliðin okkar undanfarin ár hafa náð frábærum árangri en við höfum komist og farið á stórmót með okkar karla-, kvenna- og unglingalið.
Á sama tíma hefur skráðum iðkendum í aðildarfélögunum fjölgað úr 22.000 í rúm 30.000.
Við höfum aukið framlag í ferðajöfnunarsjóð og eflt hæfileikamótun yngri leikmanna um allt land með hagsmuni landsbyggðarinnar í huga. Margt annað hefur áunnist sem ekki gefst tækifæri á að tilgreina frekar hér.
Aðildarfélögin eru að vinna gott starf um allt land. Mikill metnaður er ríkjandi með öflugu grasrótarstarfi sem aldrei fyrr en einnig með ríkari áherslu á afreksstarfið.
Þar getum við enn bætt okkur og munum vonandi á næstu árum efla enn frekar okkar afreksstarf innan KSÍ sem og hjá félögunum. Við þurfum svo sannarlega einnig að stjórnvöld taki löngu tímabæru ákvörðun um að byggja nýjan þjóðarleikvang.
Það hefur verið heiður og ánægja að vera formaður knattspyrnusambandsins þessi fjögur og hálft ár. Auðvitað hefði maður viljað að endirinn hefði verið ánægjulegri og umræðan undanfarið snúist meira um allt það góða sem að fótboltinn gefur okkur og hefur upp á að bjóða. Það þýðir þó ekki að fást um það heldur horfa björtum augum fram á veginn og við öll að vera staðráðin í að gera gott starf enn betra.
Mig langar í lokin að þakka ykkur öllum samstarfið undanfarin ár, bæði stjórnarfólki KSÍ og aðildarfélaganna, nefndarfólki, dómurum, sjálfboðaliðum, leikmönnum og stuðningsmönnum öllum ásamt því frábæra starfsfólki og þjálfurum KSÍ sem gaman var að starfa með. Ég vil einnig nota tækifærið og óska verðandi formanni og komandi stjórn velfarnaðar.
Með kærri kveðju!
Guðni Bergsson