Skemmtilegur og góður hausverkur

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög sáttur með sigurinn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum eftir 2:1-sigur Íslands gegn Tékklandi á alþjóðlega mótinu She Believes Cup í Carson í Kaliforníu í nótt.

Þorsteinn gerði tíu breytingar á byrjunarliði sínu frá 1:0-sigrinum gegn Nýja-Sjálandi í 1. umferð keppninnar en það voru þær Natasha Anasi og Selma Sól Magnúsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.

„Það var margt í leiknum sem var gott og líka margt sem við þurfum að laga. Þetta var mjög lærdómsríkur leikur fyrir okkur og jafnframt erfiður en heilt yfir er ég mjög sáttur með stelpurnar að hafa klárað dæmið.

Mér finnst ég alltaf stilla upp góðu liði, sama hversu margar breytingar ég geri. Ég lagði upp með það fyrir leikinn að við myndum vinna hann og það er alltaf gott að vinna. Þessi leikur gefur okkur bæði trú og sjálfstraust fyrir þau verkefni sem framundan eru,“ sagði Þorsteinn.

Íslenska liðið fagnar marki Natöshu Anasi strax á 11. mínútu …
Íslenska liðið fagnar marki Natöshu Anasi strax á 11. mínútu gegn Tékklandi. Ljósmynd/KSÍ

Skiptir ekki máli hver spilar

Ísland mætir Bandaríkjunum í hreinum úrslitaleik um sigur á mótinu aðfaranótt fimmtudags en leikurinn fer fram í Frisco í Texas.

„Leikurinn gegn Bandaríkjunum verður fyrst og fremst krefjandi. Það verða örugglega 10.000 til 13.000 manns á leiknum og ég á von á mikilli stemningu í stúkunni. Það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í þessu móti og að enda þetta á leik gegn Bandaríkjunum á þeirra heimavelli er frábært.

Ég er í þeirri krefjandi stöðu að hafa úr mörgum leikmönnum að velja sem er bara jákvætt. Við erum alltaf að komast lengra og lengra í því sem við viljum gera og svo hjálpar það okkur líka að ná í úrslit, sama hversu margar breytingar við gerum. Það skiptir ekki máli hver spilar og það að velja liðið er skemmtilegur og góður hausverkur að hafa,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert