Vonandi er loksins að birta til

Laugardalsvöllur er barn síns tíma, segir Vanda Sigurgeirsdóttir.
Laugardalsvöllur er barn síns tíma, segir Vanda Sigurgeirsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður Knattspyrnusambands Íslands segir í ávarpi í ársskýrslu sambandsins fyrir árið 2021 að aðstaðan á Laugardalsvelli sé með öllu óboðleg og vonandi sé loksins að birta til í málefnum nýs þjóðarleikvangs.

Vanda segir m.a. í ávarpinu:

Laugardalsvöllur er barn síns tíma, leikvangur á undanþágum og aðstaðan er með öllu óboðleg. UEFA hefur krafist svara um framkvæmdir og ljóst að aðgerða er þörf. Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, hefur lýst yfir miklum áhuga á verkefninu, sem er ánægjulegt. Nýr starfshópur þriggja ráðuneyta hefur hafið störf og á að skila skýrslu um miðjan mars á þessu ári. Vonandi er nú loks að birta til í málefnum Þjóðarleikvangs, því ekki verður unað við núverandi ástand mikið lengur.

Við þurfum völl sem uppfyllir kröfur um alþjóðaknattspyrnu, sem ýtir undir árangur en hamlar honum ekki, sem nýtist landsliðum og félagsliðum og býður upp á aðstöðu sem stenst kröfur nútímans. Glæsilegir knattspyrnuvellir spretta upp víða um Evrópu og ekki skortir á hugmyndir um uppbyggingu vallar hér á landi. Stjórnvöld þurfa því að bretta upp ermar og láta verkin tala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert