Danskur landsliðsmaður til Valsmanna

Heimir Guðjónsson þjálfari Vals fær enn einn leikmanninn í sinn …
Heimir Guðjónsson þjálfari Vals fær enn einn leikmanninn í sinn hóp. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Danska knattspyrnufélagið AGF hefur staðfest að miðvörðurinn Jesper Juelsgård hafi verið leystur undan samningi til að hann gæti gengið til liðs við Valsmenn.

Hann átti hálft ár eftir af samningi sínum við félagið en Stig Inge Björnebye íþróttastjóri AGF segir að eftir viðræður hafi fengist góð lausn á málunum fyrir bæði leikmanninn og félagið. „Við sendum hann til Íslands með miklum þökkum fyrir hans framlag til AGF og minningar um góðar stundir," segir Björnebye á vef félagsins.

Juelsgård er 33 ára gamall reyndur varnarmaður sem á 133 mótsleiki að baki með AGF á undanförnum fimm árum en þar hefur hann verið samherji landsliðsmannanna Jóns Dags Þorsteinssonar og Mikaels Andersons.

Áður lék hann með Bröndby og Midtjylland, og eitt tímabil með Evian í efstu deild í Frakklandi, en Juelsgård á að baki 269 leiki í dönsku úrvalsdeildinni og hann lék tvo A-landsleiki fyrir Danmörku árin 2012 og 2014. Þá lék hann áður með öllum yngri landsliðunum.

Fram kemur að Juelsgård hafi samið við Valsmenn til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert