Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta, er hæstánægð með þátttöku íslenska liðsins á She Believes-mótinu sterka. Ísland mætir Bandaríkjunum í hreinum úrslitaleik um sigur á mótinu næstu nótt en Íslandi nægir jafntefli eftir sigra á Nýja-Sjálandi og Tékklandi.
„Þetta er stórglæsilegt mót og það er gaman að fá að taka þátt í þessu, sérstaklega rétt fyrir EM. Við höfum ekki spilað saman síðan í desember og sumar eru ekki á tímabili en ég er ánægð með spilamennskuna og góða samkeppni,“ sagði Gunnhildur á blaðamannafundi í dag.
Gunnhildur þekkir vel til bandaríska fótboltans, þar sem hún hefur leikið með Utah Royals og Orlando Pride undanfarin ár. Hún segir bandaríska liðið sterkt, þrátt fyrir að það vanti góða leikmenn.
„Þær eru flestar að spila í deildinni hjá okkur. Þær eru með svo mikið af leikmönnum og þótt stærstu nöfnin séu ekki koma aðrar frábærar í staðinn. Við verðum að eiga góðan leik til að vinna og ég hef fulla trú á því. Ég vil að við einbeitum okkur að okkur og spilum okkar leik,“ sagði Gunnhildur.