Knattspyrnufélagið Uppsveitir úr Árnessýslu hefur verið útnefnt „Grasrótarfélag ársins 2021“ af Knattspyrnusambandi Íslands.
Uppsveitir er félag sem var stofnað árið 2019 og hefur leikið tvö undanfarin ár í 4. deild karla en jafnframt haldið úti knattspyrnuæfingum fyrir börn og unglinga í helstu þéttbýliskjörnum svæðisins, í Árnesi, Borg, Brautarholti, Flúðum, Laugarvatni og Reykholti.
Á heimasíðu KSÍ segir að Uppsveitir fái viðurkenninguna fyrir frábært uppbyggingarstarf í knattspyrnu barna og unglinga.