Kvennalandslið Íslands og Bandaríkjanna í knattspyrnu mætast í nótt í hreinum úrslitaleik She Believes Cup, alþjóðlega mótsins, í Frisco í Texas. Þetta er í annað sinn sem þjóðirnar eigast við í úrslitaleik á alþjóðlegu móti.
Það gerðist áður árið 2011 þegar liðin mættust í úrslitaleik Algarve-bikarsins í Portúgal, eftir að þau höfðu unnið hvort sinn riðilinn á mótinu. Íslenska liðið kom þar skemmtilega á óvart með því að sigra Svía, Dani og Kínverja í riðlakeppninni.
Ísland komst óvænt yfir í fyrri hálfleik úrslitaleiksins, 2:1, þegar Katrín Ómarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir skoruðu, en bandaríska liðið vann að lokum 4:2 sigur og fékk gullverðlaunin. Úrslitin réðust á 87. mínútu þegar Alex Morgan tryggði bandarískan sigur.
Þó ellefu ár séu liðin frá þessum leik tóku þrjár af núverandi landsliðskonum Íslands þátt í leiknum.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag