Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu, skipað leikmönnum fæddum árið 2006, sigraði Sviss 4:1 í vináttulandsleik sem fram fór í Miðgarði, nýju knattspyrnuhöllinni í Garðabæ, í dag.
Þetta er fyrsti landsleikurinn sem fer fram í húsinu en það var tekið í notkun í byrjun árs.
Sviss hafði forystu í hálfleik, 1:0, en Bergdís Sveinsdóttir jafnaði fyrir Ísland á 58. mínútu, 1:1, með hörkuskoti frá vítateig.
Lokakafli íslensku stúlknanna var síðan frábær. Bergdís kom þeim yfir á 75. mínútu, 2:1, með sínu öðru marki, laglegum skalla eftir aukaspyrnu Hörpu Helgadóttur.
Krista Dís Kristinsdóttir skoraði á 82. mínútu eftir mikinn sprett Emelíu Óskarsdóttur upp hægri kantinn og Kolbrá Una Kristinsdóttir skoraði fjórða markið á 85. mínútu með skoti rétt utan vítateigs, 4:1.
Liðin mætast aftur í Miðgarði á laugardaginn.