Svíinn Oliver Ekroth segist vera spenntur fyrir tækifærinu til að spila í Evrópukeppni í knattspyrnu en hann gekk formlega í raðir Víkings í dag.
Mbl.is spurði Ekroth hvernig hann endaði á Íslandi? „Það er góð spurning. Umboðsmaðurinn lét mig vita af áhuga hjá íslensku liði og sagði mér að Víkingur hafi orðið meistari á síðasta tímabili. Þeir muni því spila Evrópuleiki á keppnistímabilinu. Það kveikti áhuga hjá mér. Það er draumur að spila Evrópuleiki því ég hef nú bara horft á þá í sjónvarpi en nú sér maður fram á að taka þátt í þeim. Ég endaði því hérna,“ sagði Ekroth þegar mbl.is ræddi við hann í Víkinni í Fossvoginum í dag en Víkingar eru sem kunnugt er Íslands-og bikarmeistarar.
Hann vissi lítið um íslensku deildina en hefur þó leikið með Íslendingi í heimalandinu. „Ég veit að í deildinni eru sænskir leikmenn. Ég á vin frá Íslandi sem ég spilaði með í neðri deildum í Svíþjóð, Bjarni Mark Antonsson. Þegar við ræddum saman þá sagði hann mér auðvitað eitthvað frá Íslandi. Deildin sé að eflast og landið sé fallegt. Ég sagði honum að ég myndi nú aldrei fara til Íslands til að spila en nú er ég hér,“ sagði Ekroth og hló. Hann er nýkominn til landsins og á eftir að kynnast liðsfélögunum.
„Ég kom til landsins fyrir tveimur dögum og fór í læknisskoðun. Ég sá leikinn í gær hjá Víkingi gegn Val í Lengjubikarnum. Ég hef því ekki hitt leikmennina nema bara stuttlega eftir leikinn í gær en mun hitta þá á morgun,“ sagði Ekroth ennfremur.