Sævar Pétursson var að vonum svekktur eftir kosningatap gegn Vöndu Sigurgeirsdóttur til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins í Ólafssal á Ásvöllum í dag.
„Fyrstu viðbrögð eru náttúrlega svekkelsi. Maður er keppnismaður og var að bjóða sig fram en á sama tíma er staða Vöndu sterk og ég óska henni innilega til hamingju, hún er vel að þessu komin,“ sagði Sævar eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir.
Munurinn á frambjóðendunum tveimur var talsvert meiri en flestir bjuggust við. Vanda hlaut 105 atkvæði en Sævar 44.
„Þetta kom mér aðeins á óvart, ég mat stöðuna öðruvísi. Miðað við umræðuna síðustu daga var alveg ljóst að boltinn var að rúlla með Vöndu og það er bara niðurstaðan sem kemur upp úr kössunum í dag, bara flottur sigur hjá henni.“
Sævar er framkvæmdastjóri KA og ætlar sér ekki að taka neitt frí eftir kosningabaráttuna.
„Ég mæti bara á kontórinn á mánudaginn og það er áfram gakk.“